Kæru nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands!
Verið hjartanlega velkomin til starfa þennan veturinn. Við hjá Ritveri Háskóla Íslands erum að setja okkur í stellingar og hlökkum mikið til að takast á við verkefni vetrarins.
Skólaárið fer af stað af miklum krafti og á undanförnum vikum höfum við meðal annars heimsótt meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði, nýja meistaranema á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hjúkrunarfræðinema, nýnema í bókmenntafræði, MBA nema, farið á nýnemadaga á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hitt doktorsnema í hjúkrunarfræði og nýja doktorsnema af öllum fræðasviðum. Að auki höfum við fundað með kennurum og skipulagt ýmis konar samstarf bæði varðandi kennslu og kynningar.
Einstaklingsráðgjöfin er þó alltaf flaggskip starfseminnar og jafningjaráðgjafar hafa haft í nógu að snúast að taka á móti nemendum í ráðgjöf, bæði á íslensku og ensku, enda eru lokaritgerðaskil handan við hornið.
Við viljum hvetja alla nemendur til að leita til okkar í Ritverinu strax í upphafi misseris. Ritunarfærni eflist með ástundun og æfingu, líkt og önnur færni og því er mikilvægt að nemendur byrji strax að æfa sig!
Á næstu dögum munum við fjölga vöktum í Ritverinu, auglýsa fræðsludagskrá vetrarins og kynna ritstundir meistara- og doktorsnema. Við hvetjum nemendur því til að fylgjast vel með póstinum sínum og nýta þau úrræði sem standa til boða.
Góða helgi,
Emma Björg